BERLIN GERMANY FALL 2023 (1)-1

Með vali á BÍV22 vill brandr efla umræðu um mikilvægi góðrar vörumerkjastefnu. Útnefningu hljóta þau vörumerki sem skara framúr þegar horft er til stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar. Ferlið byggir á akademískri og faglegri nálgun vörumerkjastjórnunar með staðfærslu sem þungamiðju.

Girnilegar hugbúnaðarlausnir

Dineout er tilnefnt til Bestu íslensku vörumerkjanna á einstaklingsmarkaði árið 2022. Í aðdraganda viðurkenningar athafnarinnar sem fer fram í byrjun febrúar munum við kynnast betur þeim vörumerkjum sem eru tilnefnd. Hér á eftir fylgja svör við nokkrum spurningum sem við lögðum fyrir Dineout.

dineout-transparent

Vörumerki í vöðvaminni

Hvað gerir vörumerkið Dineout einstakt?

Dineout er fyrirtækið sem kom íslenskum veitingastöðum úr því að nota stílabækur fyrir borðabókanir í að vera með kerfi sem sér um allt utanumhald utan um borðabókanir og nú einnig annan rekstur veitingastaða. Fyrirtækið er einstakt fyrir þær sakir að kerfið sem þróað hefur verið inniheldur allar hugbúnaðarlausnir sem veitingastaður þarf til að starfrækja; borðabókanir, matarpantanir, kassakerfi, viðburðakerfi, rafræn gjafabréf, vefsíður, sjálfvirkar greiðslur (í gegnum QR kóða) auk beintenginga við önnur kerfi, t.d. bókhaldskerfi sem auðveldar allt utanumhald utan um rekstur veitingastaða og gerir starfsemina sjálfbærari og skilvirkari. Ásamt því að útvega veitingastöðum þær hugbúnaðarlausnir sem þarf til að starfrækja, heldur fyrirtækið einnig úti markaðstorginu dineout.is og Dineout appinu sem er einskonar “brú” veitingastaða yfir til almennings. 

Það sem gerir vörumerkið Dineout einstakt er að almenningur tengir það strax við það sem það stendur fyrir; að fara út að borða, finna laus borð og bóka. Það virðist vera komið inn í vöðvaminni almennings að ef það ætlar út að borða, fer það inná dineout.is eða notar Dineout appið. 

Dineout var eitt af 13 fyrirtækjum sem fékk “Meðmælingu Maskínu 2022”, og var hlutskarpast í flokknum vefþjónustur. Samkvæmt niðurstöðum Maskínu var Dineout óumdeildur hástökkvari ársins sem við erum afar þakklát fyrir og sýnir hversu sterkt vörumerkið er. Myndmerki Dineout er mjög einkennandi fyrir það sem fyrirtækið stendur fyrir. Hægt að horfa á myndmerkið sem matardisk og gaffal en svo er einnig hægt að horfa á það sem stafinn “D” og stafinn “O” (DineOut).

Hugbúnaðarþróun
og meiri hugbúnaðarþróun

Hvað eruð þið búin að gera á þessu ári sem stendur upp úr?

Markmið fyrirtækisins hefur verið að þjónusta veitingastaði með því að bjóða upp á hugbúnaðarlausnir sem þarf til að sinna rekstri þeirra. Árið 2018 hófst þróun á borðabókunarkerfi fyrir veitingastaði ásamt markaðstorginu dineout.is og snjallforriti Dineout. Síðan þá hefur fyrirtækið þróað frá grunni allan þann hugbúnað sem veitingastaður þarf til að sinna rekstri sínum og átti mikil þróun sér stað á árinu 2022.

Á nýliðnu ári tóku flest öll hótel landsins upp snertilausar greiðslur (QR kóða) frá Dineout fyrir herbergisþjónustu (room-service). Í stað þess að gestir hótelsins þurfi að taka upp símann og hringja eftir herbergisþjónustu er nú hægt að panta með auðveldum hætti með hugbúnaðarlausn frá Dineout. Pöntunarprentari og/eða spjaldtölva í eldhúsi hótelsins sýnir þegar pöntun hefur verið gerð og þá getur starfsfólk útbúið það sem hótelgestur hefur pantað. 

Stórt verkefni á nýliðnu ári var að tengja hugbúnaðarlausnir Dineout við við önnur kerfi, til dæmis: Tix miðasölukerfið, flugfélög og DK bókhaldskerfið. Þessar tengingar hafa aukið bókanir inn á veitingastaði landsins til muna ásamt því að tenging við bókhaldskerfi styðja við kassakerfi Dineout þar sem allar upplýsingar fara beint inn í bókhaldskerfin og þar af leiðandi auðveldar allt utanumhald rekstraraðila. 

Annað mikilvægt verkefni á nýliðnu ári var að þróa og útfæra hugbúnaðarlausnir okkar til að styðja við erlend markaðssvæði og hefur Dineout nú hafið sókn á Norðurlöndunum. Við opnuðum skrifstofu í Kaupmannahöfn þar sem boltinn er strax farinn að rúlla og erum við virkilega spennt fyrir komandi tímum. 

Á seinni hluta ársins 2022 var lagt í mikla vinnu við að þróa og betrumbæta markaðstorgið dineout.is og fór ný vefsíða, sem við erum virkilega stolt af, í loftið í nóvember síðastliðnum. Eitt af markmiðum okkar við gerð vefsíðunnar var að bæta upplifun viðskiptavinarins þegar hann bókar borð með því að vera með myndbönd inni af stöðunum. Þá fær viðskiptavinur enn betri tilfinningu fyrir staðnum áður en hann tekur ákvörðun um að bóka. 

Í lok árs 2022 setti Dineout í loftið rafræn gjafabréf og tóku tæplega 200 veitingastaðir þátt í að bjóða upp á slíkt fyrir almenning. Sú vara er komin til að vera en því til viðbótar setti Dineout á markað “Dineout rafræn gjafabréf”. Með Dineout gjafabréfinu getur almenningur keypt eitt gjafabréf sem gildir á flestum þeim veitingastöðum sem eru í viðskiptum við Dineout. Almenningur getur því haft val um fjölda staða til að fara á og notað sama gjafabréfið á öllum þeim stöðum. Þessi vara var gríðarlega vinsæl fyrir jólin og tilvalin tækifærisgjöf! 

Neyðin kennir
Dineout að spinna

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar á árinu?

Það er eiginlega ekki hægt að tala um árið 2022 án þess að nefna heimsfaraldurinn sem allir kannast við. Þegar Covid skall á var veitingastöðum gert að skella í lás og í kjölfarið hrundu borðabókanir niður. Það var á þeim tíma sem Dineout ákvað að bíða ekki af sér storminn, heldur þróa matarpöntunarkerfi fyrir take-away og heimsendingar til að svara þörf sinna viðskiptavina.

Við fundum ennþá fyrir Covid í byrjun árs 2022 en á þeim tíma vorum við að leggja lokahönd á þróun þess heildræna kerfis sem nú er orðið til. Nýja kerfið býður upp á allar þær lausnir sem veitingastaður þarf til að starfrækja. Það getur því átt við í árferði sem heimsfaraldri eða eðlilegu árferði eins og við þekkjum í dag. 

Önnur áskorun blasti við þegar Covid tók að dvína því þá fóru allar lausnir Dineout á fullt og eftirspurnin jókst hratt á skömmum tíma. Til að verða við eftirspurninni þurfti að fjölga starfsfólki og velja aðila af kostgæfni. Í dag er teymi Dineout fjórfalt stærra en það var árið áður ásamt því að velta þess þrefaldaðist á árinu samanborið við árið á undan. Í hverjum mánuði setjast um 600.000 manns til borðs í gegnum lausnir Dineout og nú er stór hluti bókana sem fer í gegnum markaðstorgið dineout.is og Dineout appið.

_BIV_Viltu

Hlaðvörp, golfmót og margt fleira

Hafið þið farið nýjar leiðir til að ná til núverandi eða nýrra markhópa?

Á síðastliðnu ári hefur Dineout valið nokkrar nýjar leiðir til að ná til núverandi og nýrra markhópa meðal annars: 

Ráðstefnur 

  • Dineout tók þátt í tveimur stórum ráðstefnum árið 2022. Önnur ráðstefnan var “Stóreldhúsið” í Laugardalshöllinni, fagsýning fyrir stóreldhúsageirann (helstu markhópar sýningarinnar eru t.d. menntastofnanir, vinnustaðir, ríkisstofnanir, spítalar, hótel, veitingageirinn, mötuneyti o.fl. Eingöngu fagfólki er boðið á sýninguna). Hin ráðstefnan sem Dineout tók þátt í var “Horesta”, vinsælasta og virtasta ráðstefna Danmerkur í veitingageiranum. Á báðum ráðstefnum var Dineout með glæsilegan bás og öflugt teymi sem kynnti hugbúnaðarlausnir fyrir gestum. 

Stafræn markaðssetning 

  • Á árinu var mikil aukning í Stafrænni markaðssetningu, bæði á samfélagsmiðlum og í gegnum fréttabréf og aðra fréttamiðla. Það er mikilvægt fyrir vörumerkið að vera sýnilegt á samfélagsmiðlum og miðla áhugaverðu efni um rekstraraðila sem eru í Dineout fjölskyldunni (nota hugbúnaðarlausnir frá Dineout). Reglulega eru send út fréttabréf á notendur markaðstorgsins þar sem veitingastaðir mánaðarins eru kynntir, nýir staðir, viðburðir, tilboð og annað sem við á hverju sinni. 

Hlaðvörp 

  • Íslendingar hlusta mikið á hlaðvörp og þessi vettvangur var því virkilega spennandi nýjung fyrir okkur. Árið 2022 hóf Dineout samstarf við hlaðvarpsþættina Dr. Football (Hjörvar Hafliðason) og Chess After Dark (Birkir og Leifur). Það er okkar tilfinning að þessi vettvangur nái til nýrra og núverandi markhópa sem Dineout vill höfða til.

Viðburður

  • Dineout hélt Texas Scramble golfmótið “Dineout Open” á golfvellinum í Mosfellsbæ síðastliðið sumar. Uppselt var í mótið á skömmum tíma og voru vinningarnir þess eðlis að margir vildu taka þátt. Vinningar samanstóðu af gjafabréfum á veitingastaði, gjafabréfum hjá flugfélögum auk fjölda annarra veglegra vinninga. Virkilega vel heppnað golfmót og frábær leið til að byggja upp persónuleg sambönd við tiltekinn markhóp.

Aðrar markaðsleiðir

  • Settum í loftið vefsíðuna dineout.restaurant sem sýnir vöruframboð Dineout og nánari upplýsingar um fyrirtækið. 
  • Besta markaðssetningin hefur svo verið “word of mouth” en það er það sem við finnum mest fyrir og viðskiptavinir okkar koma í dag flestir vegna þess að þeir hafa reynslu af kerfum Dineout og vilja bæta við fleiri kerfum frá Dineout eða þeir hafa ekki áður verið í viðskiptum en hafa heyrt góða hluti og ákveða því að koma til liðs við okkur. Það sama má segja um hinn almenna notanda sem snæðir á veitingastað deilir með vinum sínum hversu auðvelt það sé að bóka borð og skoða úrval veitingastaða sem eiga laus borð. 
  • Framkvæmdastjóri og einn stofnenda Dineout, Inga Tinna Sigurðardóttir, kom fram á þónokkrum stórum viðburðum á árinu og fjallaði þar um nýsköpun, vegferð Dineout ásamt því að tala almennt um stofnun fyrirtækja, hugbúnaðargeirann, hvað þarf til í nýsköpunarheiminum auk fleiri viðfangsefna. Þess má geta að Inga Tinna fékk hvatningarviðurkenningu FKA (Félag kvenna í atvinnulífinu) árið 2022, viðurkenning sem er veitt konum í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði og nýjungar. Viðburðir sem Inga Tinna tók þátt í var meðal annars; aðal ræðuhaldari á athöfn styrkveitingar Tækniþróunarsjóðs, hún var fengin til að fara til Kaupmannahafnar og talaði þar á stórum viðburði á vegum FKA ásamt því að koma fram í ótal útvarps- og sjónvarpsviðtölum. Hún sótti einnig mikilvægar og stórar ráðstefnur erlendis og þar ber helst að nefna tækniráðstefnuna Slush í Helsinki. Þar var Inga Tinna í sendinefnd sem Íslandsstofa skipulagði í samstarfi við íslenska sendiráðið í Finnlandi. Hún kynnti Dineout fyrir erlendum aðilum í tæknigeiranum auk fjárfesta.

    Þessi nýja markaðsleið fyrirtækisins hefur stækkað tengslanetið okkar og aukið umtal Dineout á jákvæðan hátt. 

"Dineout meistarinn"

Hafið þið gert eitthvað skemmtilegt í ár til þess að styrkja brandið innanhúss?

Það voru ýmsir viðburðir og atriði gerð til að styrkja Dineout brandið innanhúss. Sem dæmi má nefna nýtt skrifstofuhúsnæði sem teymið flutti í um mitt árið. Þá tóku allir þátt í að móta nýja umhverfið með tilliti til vinnu og afþreyingar. Vörumerkið spilar stórt hlutverk í nýja rýminu og er Dineout myndmerkið og ljósmyndir tengdar vörumerkinu víðsvegar um rýmið. 

Á vinnudögum keppa starfsmenn í borðtennis og eru nokkrir leikir spilaðir á dag. Við erum með keppni þar sem mánaðarlega er krýndur “Dineout meistarinn”. Dineout teymið stóð einnig fyrir “pub quiz” innanhúss þar sem hluti spurninganna tengist oftast að miklu leyti brandinu ásamt öðrum hlutum. Þar er krýndur “Dineout pub quiz meistarinn” og er sá titill eftirsóttur. 

Starfsmenn Dineout spila flestir golf og eru duglegir að hópa sig saman á sumrin og spila. Dineout stóð fyrir stóru golfmóti á árinu þar sem allir starfsmenn tóku þátt með einum eða öðrum hætti. Undirbúningur og þátttaka styrkti brandið innanhúss til muna. 

Rekstur og sjálfbærni fer saman

Hvað hefur Dineout gert í ár sem tengist sjálfbærni eða samfélagslegri ábyrgð?

Umhverfismál 

Hugbúnaðarlausnir Dineout búa yfir nokkrum atriðum sem stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum. Í því samhengi má nefna að stór hluti þeirra veitingastaða sem hefur tekið upp Dineout kerfin þurfa nú ekki lengur að notast við bækur og blöð til að halda utan um bókanir og minnisatriði tengd bókunum. 

Því til viðbótar má nefna þróun á öðrum lausnum Dineout árið 2022 sem fól meðal annars í sér rafvæðingu gjafabréfa. Hingað til hafa fjölmargir veitingastaðir aðeins verið með inneignir og gjafabréf á útprentuðum blöðum. Rafvæðing af þessu tagi ætti því að stuðla að jákvæðum umhverfisáhrifum. Varðandi viðskiptavini (fyrirtæki og einstaklingar) sem kaupa inneignir til gjafa, stuðlar lausnin óumflýjanlega líka að jákvæðum umhverfisáhrifum þar sem kaupandi þarf ekki að gera sér ferð á staðinn til að vitja inneignarinnar. 

Mannauður 

Dineout varð við beiðni Háskólans í Reykjavík um að gefa nemendum sem stunda BSc-nám í tölvunarfræði kost á því að koma í starfsnám til fyrirtækisins. Tekin voru viðtöl og munu þrír tölvunarfræðinemar bætast við Dineout teymið í upphafi árs 2023. 

Samfélagsleg ábyrgð 

Dineout er stoltur þátttakandi í átakinu “VERUM VAKANDI - Er allt í góðu?” sem fór í loftið snemma á síðasta ári. Átakið fékk mikil viðbrögð og gekk út á að gera kröfu um öryggi á djamminu. Vera vakandi og stíga inn í þegar sést til einhvers vera með yfirgang eða áreitni. Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir því að Dineout tæki þátt í átakinu og meðal þess sem Dineout framkvæmdi fyrir verkefnið var að setja auglýsingabanner um átakið í fót (e. footer) á öllum staðfestingartölvupóstum (um milljón póstar árið 2022) sem fólk fékk þegar það bókaði borð ásamt öllum staðfestingar-lendingarsíðum. Það skiptir Dineout miklu máli að geta tekið þátt í svona samfélagslegum verkefnum. 

Einnig má nefna samfélagslega ábyrgð Dineout sem felst í því að þróa allar lausnir sínar byggt á þörfum veitingastaða og almennings. Oft er sú þróun ekki í beinni tengingu við tekjuskapandi þætti rekstursins en er engu að síður mikilvæg til að stuðla að velferð heildarinnar og efnahagslífsins. 

Dineout býr yfir gríðarlegu magni upplýsinga varðandi gengi veitingageirans á Íslandi. Gögnin sem fyrirtækið býr yfir hafa ekki verið nýtt hingað til. Unnið er að því í samstarfi við stjórnvöld og persónuverndarlög að skoða hvernig hægt er að nýta gögnin til að sjá gagnlegar upplýsingar sem nýtast einnig við áherslur varðandi stuðning hins opinbera við geirann.

BIV2022_merki_sv

Þann 8. febrúar verður þeim vörumerkjum sem þykja hafa skarað fram úr í stefnumiðaðari vörumerkjastjórnun veitt viðurkenning. 

Fleiri tilnefnd vörumerki

Smelltu á takkan hér fyrir neðan til þess að kynnast fleirum tilnefndum vörumerkjum!