BERLIN GERMANY FALL 2023 (1)-1

Með vali á BÍV22 vill brandr efla umræðu um mikilvægi góðrar vörumerkjastefnu. Útnefningu hljóta þau vörumerki sem skara framúr þegar horft er til stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar. Ferlið byggir á akademískri og faglegri nálgun vörumerkjastjórnunar með staðfærslu sem þungamiðju.

Upplifðu kraftinn og fegurðina sem
býr í norðrinu

66°Norður er tilnefnt til Bestu íslensku vörumerkjanna á einstaklingsmarkaði árið 2022. Í aðdraganda viðurkenningar athafnarinnar sem fer fram í byrjun febrúar munum við kynnast betur þeim vörumerkjum sem eru tilnefnd. Hér á eftir fylgja svör við nokkrum spurningum sem við lögðum fyrir 66°Norður.

Box-logo-ENS-2019

Gæði, ending og notagildi

Hvað gerir vörumerkið 66°Norður einstakt?

66°Norður var stofnað á Suðureyri við Súgandafjörð árið 1926 þar sem fyrirtækið hóf framleiðslu á  fatnaði fyrir íslenska sjómenn sem áttu allt sitt undir því að komast heilir til hafnar. Í framhaldi fóru  björgunarsveitir landsins einnig að nota fatnaðinn og hefur fyrirtækið síðan þá stöðugt þróast með  þjóðinni og aðlagast breyttum aðstæðum með því að þróa vöruframboðið og hönnun í takt við þarfir hverju sinni. 

Gæði, ending og notagildi eru gamalgróin gildi okkar, bæði vegna íslenskrar veðráttu, sem er  krefjandi og síbreytileg, og vegna þess að í svona litlu samfélagi hafa viðskiptavinir okkar ávallt verið  vinir okkar, fjölskylda og nágrannar. Frá upphafi hefur fyrirtækið rekið sínar eigin verksmiðjur og  saumastofur með það að markmiði að fatnaðurinn endist sem lengst.  

Markmið 66°Norður er að leyfa fólki að upplifa kraftinn og fegurðina sem býr í norðrinu. Það þýðir að  við framleiðum föt sem gerir fólki kleift að sinna starfi og leik í aðstæðum þar sem það væri annars  ekki hægt. Það þýðir að við segjum áhugaverðar sögur úr norðrinu. Það þýðir að viðskiptahættir  okkar þurfa að huga vel að nærsamfélagi okkar og að vernda náttúruna svo komandi kynslóðir geti  líka upplifað norðurslóðir.  

Verslunarmannahelgi, BCorp™ og nýjar verslanir

Hvað eruð þið búin að gera á þessu ári sem stendur upp úr?

2022 var stórt ár hjá 66°Norður. Í byrjun ársins hlaut 66°Norður alþjóðlegu sjálfbærnisvottunina B Corp™ fyrst íslenskra fyrirtækja, en vottunina hljóta þau fyrirtæki sem hafa uppfyllt hæstu kröfur um samfélagslega og umhverfislega frammistöðu í starfsemi sinni á ábyrgan og gagnsæjan hátt. Um sumarið átti fyrirtækið sína söluhæstu verslunarmannahelgi frá upphafi, sem var að stórum hluta afrakstur kraftmikillar herferðar sem byggði á gömlum hefðum þjóðhátíðargesta. Þar voru gestir  hvattir til að merkja sjófatnað 66°Norður með sínum eigin listaverkum og skilaboðum.  

Í lok sumars opnaði fyrirtækið svo flaggskipsverslun sína á Hafnartorgi, þar sem íslensk hönnun og  arkitektúr spila aðalhlutverk. Vinsældir verslunarinnar leyndu sér ekki og hýsti verslunin til að mynda tónleika Laufeyjar Lín sem kórónuðu vel heppnað samstarf fyrirtækisins og Laufeyjar. Hápunktur ársins var svo opnun flaggskipsverslunar 66°Norður á Regent Street í London, en opnunin  markar stærsta skref fyrirtækisins á alþjóðlegum vettvangi. Opnun verslunarinnar og uppbygging  vörumerkisins í Bretlandi hefur gengið vonum framar og spilaði mikilvægan þátt í því að fyrirtækið  átti svo sín söluhæstu jól frá upphafi.  

Að halda í DNA-ið á alþjóðlegum markaði

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar á árinu?

Stærsta áskorun fyrirtækisins á þessu ári var að opna verslun í London og að byggja upp markaðshlutdeild á Bretlandsmarkaði. Hér hefur 66°Norður unnið náið með innlendum sérfræðingum sem hafa m.a. hafa hjálpað til við að móta hvernig fyrirtækið eigi að ná til viðeigandi markhóps. "To go global you need to think local while staying true to the brand’s DNA" hefur verið eins konar mantra fyrirtækisins og um leið stærsta áskorun þess í alþjóðlegri markaðsstefnu. Saga fyrirtækisins er einstök, við erum stolt af því að vera frá Íslandi og leggjum mikið upp úr því að koma sögunni til skila í markaðssetningu okkar.

Að lokum hefur það einnig reynst stór áskorun að viðhalda daglegum takti á núverandi mörkuðum, þ.e.a.s. Íslandi, okkar mikilvæga heimamarkaði, og í Danmörku, en það hefur krafist gríðarlegrar skipulagningu og hnitmiðaðrar teymisvinnu.  

Við seljum einnig fatnaðinn okkar í vefsölu víða um heim, þar var helsta áskorunin að viðhalda áframhaldandi vexti á lykilmörkuðum okkar eins og í Bandaríkjunum og Þýskalandi. 

_BIV_Viltu

TikTok, krotað á pollagalla og samstarfsaðilar

Hafið þið farið nýjar leiðir til að ná til núverandi eða nýrra markhópa?

Í upphafi ársins byrjuðum við að feta okkur á samfélagsmiðlinum TikTok með því að sjónarmiði að ná  betur til yngri markhópa. Sem hluti af þeirri vinnu höfum við þurft að umbreyta stefnu okkar á  samfélagsmiðlum töluvert til að taka til greina kröfur yngri kynslóða um myndbandsefni í stað myndefnis. 
Í sumar fórum við í herferð með markmiðinu að ná til núverandi markhóps sem var á leið á útihátíðir um verslunarmannahelgina. Við endurvöktum gamla hefð að krota á pollagalla sem útihátíðargestir  gengu í. Þátttaka (e. engagement) var framar öllum vonum og skilaði mikilli aukningu í sölu milli ára. 

Þar sem sögur (storytelling) eru stór hluti af því hvernig við miðlum vörumerkinu, ákváðum við að gefa út prentað blað fyrir jólin með fréttum úr starfseminni og sögum af verkefnum okkar með  samstarfsaðilum og vinum vörumerkisins. Við dreifðum blaðinu inn á heimili landsins og náðum þannig til breiðari hóps en á netmiðlum þar sem við gefum þessar sögur út reglulega yfir árið.

Við höfum aukið umsvif okkar á alþjóðlegum heildsölumörkuðum töluvert á árinu. Vörumerkið er  komið í sölu hjá stórum aðilum eins og END í Bretlandi, Illum í Kaupmannahöfn og fleirum sem gefur okkur tækifæri til þess að ná til nýrra viðskiptavina í gegnum dreifileiðir þessara aðila. 
Að lokum hófum við einnig formlegt samstarf við bandaríska ljósmyndarann Chris Burkard sem er með 4 milljónir fylgjenda á Instagram. Markmiðið þar var að ná til nýrra viðskiptavina í Bandaríkjunum. 

Stykjum samheldnina

Hafið þið gert eitthvað skemmtilegt í ár til þess að styrkja brandið innanhúss?

66°Norður leggur mikið upp úr sterkri teymisvinnu og hefur öflug innanhúsmarkaðssetning í ár verið mikilvægur þáttur í henni. Snemma á árinu var stofnað til mánaðarlegra morgunfunda, þar sem  stjórnendur héldu kynningu með því markmiði að gefa öllu fyrirtækinu innsýn inn í stöðu mála, hvort sem það tengdist markaðsaðgerðum, fjármálum, eða framleiðslu. Morgunfundirnir hafa verið mikilvægt tól í að styrkja vitund allra starfsmenn fyrirtækisins um stefnu og stöðu vörumerkisins. 

Fyrirtækið starfrækir einnig 66°Norður Akademíuna þar sem starfsfólk fyrirtækisins getur sótt líkamsrækt á vinnutíma, jóga, námskeið, fjallgöngur, fyrirlestra og aðra afþreyingu til að stuðla að bættri líkamlegri og andlegri heilsu. Akademían hefur haft það að leiðarljósi að fylgja eftir gildum fyrirtækisins og að styrkja samheldni teymisins sem stendur að baki vörumerkisins.

Djúp þekking starfsmanna á bæði sögu 66°Norður og vörunum sem það stendur fyrir er eitthvað sem fyrirtækið leggur mikið upp úr og þar hefur markviss starfsmannaþjálfun, frekari framþróun á 66°Norður skólanum, og sérstök framleiðsla fræðslumyndbanda spilað þar stórt hlutverk í ár. 

Yndisskógur, frumkvöðlar og góðgerðarstarf

Hvað hefur 66°Norður gert í ár sem tengist sjálfbærni eða samfélagslegri ábyrgð?

Eins og fram kom áður varð 66°Norður í ár fyrsta íslenska fyrirtækið til að hljóta B Corp vottun, en um er að ræða strangt ferli þar sem þarf að ná ákveðnu skori. Úttektin snýr að allri starfsemi fyrirtækisins, allt frá framleiðslu, aðbúnaði, starfskjörum, jafnrétti, umhverfi, o.fl.. Í þessu felst vegferð þar sem fyrirtækið skuldbindur sig að taka þátt í alþjóðlegri hreyfingu og hækka skorið ár frá ári með því að stöðugt gera betur og yfirfara reksturinn til þess að verða fyrirmynd og leiðtogi þegar  kemur að samfélagslegri ábyrgð.

Í ár hélt fyrirtækið einnig áfram að rækta yndisskóg 66°Norður, en árið 2021 gerði það samning við Skógræktarfélag Íslands til 40 ára þar sem fyrirtækið fékk úthlutað land til að rækta yndisskóg. 66°Norður hefur verið kolefnisjafnað síðan 2019 og hefur reksturinn verið kolefnisjafnaður með  Kolvið og plantað hefur verið rúmlega 10.000 trjám frá 2019, en nú er unnið að því að fara vottaðar  leiðir vegna strangari krafna.

66°Norður vinnur náið með nærsamfélagi og leggur mikið upp úr að vinna með ungum og  upprennandi hönnuðum, afreks- og íþróttafólki og menningarviðburðum. Vörumerkið er mótað af  þessu samfélagi og er það stefna fyrirtækisins að skapa vettvang til að skapa sameiginleg verðmæti  með fjölbreyttum aðilum í kringum það. Mörg samstarfanna snúa að því að nýta afgangsefni og má  þar nefna verkefni með Stúdíó Fléttu, Erm og Plastplan.

Fyrirtækið hefur frá upphafi rekið viðgerðarþjónustu og hluti af því er að vekja fólk til umhugsunar að  gera við flíkur í stað þess að kaupa nýjar. Nýlegt dæmi er samstarfsverkefni við Rauða Krossinn á  Íslandi þar sem við gerðum við flíkur sem komu inn til Rauða Krossins og flíkurnar svo seldar í þeirra verslunum þar sem allur ágóðinn rann til Rauða Krossins. 66°Norður vinnur náið með UN Women á Íslandi og er aðili að þróunarverkefni sem snýr að  atvinnusköpun fyrir flóttakonur í Tyrklandi auk þess að vinna með UN Women að styrktarbol fyrir  Úkraínu.

BIV2022_merki_sv

Þann 8. febrúar verður þeim vörumerkjum sem þykja hafa skarað fram úr í stefnumiðaðari vörumerkjastjórnun veitt viðurkenning. 

Fleiri tilnefnd vörumerki

Smelltu á takkan hér fyrir neðan til þess að kynnast fleirum tilnefndum vörumerkjum!