BERLIN GERMANY FALL 2023 (1)-1

Með vali á BÍV22 vill brandr efla umræðu um mikilvægi góðrar vörumerkjastefnu. Útnefningu hljóta þau vörumerki sem skara framúr þegar horft er til stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar. Ferlið byggir á akademískri og faglegri nálgun vörumerkjastjórnunar með staðfærslu sem þungamiðju.

Borgarleikhúsið

Borgarleikhúsið er tilnefnt til Bestu íslensku vörumerkjanna á einstaklingsmarkaði árið 2022. Í aðdraganda viðurkenningar athafnarinnar sem fer fram í byrjun febrúar munum við kynnast betur þeim vörumerkjum sem eru tilnefnd. Hér á eftir fylgja svör við nokkrum spurningum sem við lögðum fyrir Borgarleikhúsið.

Borgarleikhusid-01

„Fullt hús af fólki“

Hvað gerir vörumerkið Borgarleikhúsið einstakt?

Borgarleikhúsið er stærsta sviðslistastofnun landsins, öflug menningarstofnun í ört stækkandi borg sem býður uppá fjölbreytt og metnaðarfullt verkefnaval og þjónar landinu öllu. Borgarleikhúsið hefur sannað mátt sinn og megin og er þekkt fyrir glæsilegar stórsýningar, vandaðar barnasýningar og áræðna íslenska frumsköpun. Gildi Borgarleikhússins eru áræði, metnaður og fjölbreytni og áhersla lögð á að þau gildi endurspegli alla starfsemi hússins, innávið sem útávið. Myndmerki Borgarleikhússins hefur sterka vísun í arkitektúr hússins og er áhersla á að miðla því og nafninu sterkt í gegnum bæði stafræna og hefðbundna miðla á ferskan hátt. Slagorð leikársins er „Fullt hús af fólki/hæfileikum/gleði o.s.frv.“ og vísar sterkt til gestanna, hússins og sýninganna. 

125 ára afmæli, smörrebröd og 9 líf

Hvað eruð þið búin að gera á þessu ári sem stendur upp úr?

Í kjölfar afléttinga á samkomutakmörkunum komumst við á réttan kjöl og fylltist húsið af gestum strax í febrúar, en stórsýningarnar 9 líf og Emil í Kattholti, sem báðar voru valdar sýningar ársins 2022, hafa gengið fyrir fullu húsi síðan. Nú þegar hafa 80 þúsund manns séð 9 líf og allt bendir til að sýningin slái öll fyrri met. Mun það jafngilda því að yfir 20% Íslendinga hafi séð sýninguna en til samanburðar má geta þess að víða í löndunum í kringum okkur eru ekki einu sinni 20% þjóðarinnar sem fer í leikhús, hvað þá á einu og sömu sýninguna! Leikfélag Reykjavíkur (rekstraraðili Borgarleikhússins) fagnaði 125 ára afmæli, við fórum af stað með takmarkalaust, kraftmikið og skemmtilegt leikár og gjafakortasala um jólin sló fyrri met. Borgarleikhúsið leggur mikla áherslu á heildarupplifun gesta og hóf í haust samstarf við Jómfrúna um veitingar í leikhúsinu. Gestir geta nú pantað sér smörrebröd frá Jómfrúnni fyrir leikhúsferðina og átt þannig fullkomna kvöldstund í Borgarleikhúsinu.

Samkomutakmarkanir og ný neyslumynstur gesta

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar á árinu?

Gífurleg vinna fór í skipulagningu, utanumhald og upplýsingagjöf vegna síbreytilegra reglna um samkomutakmarkanir og kom aðlögunarhæfni og sveigjanleiki starfsfólksins vel í ljós. Þrátt fyrir lokanir sendi leikhúsið frá sér efni í gegnum aðra miðla og unnið var hörðum höndum að undirbúningi nýrra sýninga. Sú vinna skilaði sér sannarlega en aðsókn í leikhúsið hefur verið sérlega góð frá hausti og á sýningarhelgi fara meira en 4000 manns gegnum húsið, en sýnt er á þremur sviðum. Góð viðbrögð gesta leikhússins sýna glöggt hversu tryggir viðskiptavinir okkar eru. Ein af áskorunum ársins var að læra inn á og lesa nýja kauphegðun gesta í kjölfar covid en neyslumynstur breyttist greinilega og meira um skyndiákvarðanir en áður. Við höldum áfram að vera með augu opin og eyru sperrt og eygjum bjarta framtíð í leikhúsinu okkar.

_BIV_Viltu

Lykilatriði að vera áhugaverð í samskiptum

Hafið þið farið nýjar leiðir til að ná til núverandi eða nýrra markhópa?

Við leggjum áherslu á að ná til markhópa leikhússins á margvíslega vegu, enda hópurinn stór og fjölbreyttur. Við höfum nýtt samfélagsmiðla í auknum mæli og við framleiðum eigið efni sem vekur áhuga fólks á Borgarleikhúsinu, sýningunum og starfseminni. Lykilatriði er að vera áhugaverð í samskiptum og búa til og miðla efni sem gestir okkar hafa áhuga á. Við nýtum einnig hefðbundna miðla töluvert auk þess sem að vera með stóran póstlista sem við sendum reglulega til og finnum það er mjög öflugt markaðstól. 

Við leggjum mikla áherslu á að nýta fjölbreyttar leiðir til að ná til markhópa og árið 2022 fórum við að nýta Linkedin markvisst til að ná til stjórnenda fyrirtækja og byrjuðum á Tiktok til að ná til yngri hópa. 

Á árinu sem leið var lagt upp úr því að ná til nýrra markhópa og var pólska sýningin Tu jest ze drago – Úff hvað allt er dýrt hérna – frumsýnd. Einnig voru valdar sýningar textaðar á pólsku, íslensku og ensku. Til að ná til yngri hópa var boðið upp á sérstök ungmennakort sem veita 50% afslátt af sýningum auk þess sem nemum býðst að kaupa sýningar á afslætti.

Kynningar og fræðsla fyrir starfsmenn

Hafið þið gert eitthvað skemmtilegt í ár til þess að styrkja brandið innanhúss?

Við erum stöðugt að byggja upp vörumerkið Borgarleikhúsið, bæði innanhúss og utan. Innanhúss er m.a. áhersla á að hafa vörumerkið sýnilegt. Allar nýjar sýningar og viðburðir á vegum hússins eru í forgrunni og einkennislitir vel sýnilegir í merkingum og innanhúss markaðsefni. Gildin okkar áræði, metnaður og fjölbreytni eru höfð að leiðarljósi í verkefnavali leikhússins og starfi þess. Á vorin höldum við rýnihópa með starfsfólki úr ólíkum deildum þar sem hópurinn aðstoðar við hugmyndavinnu í kringum kynningar og markaðssetningu einstakra leiksýninga. Nú í haust fórum við af stað með ýmsar kynningar og fræðslu fyrir starfsmenn og vorum með nýtt þjónustunámskeið fyrir allt framlínustarfsfólk þar sem markmiðið var að bæta enn frekar þjónustu við gesti leikhússins með áherslu á heildarupplifun þeirra. 

Leiklistarskóli, „afslappaðar“ sýningar og sýningar á öðrum tungumálum

Hvað hefur Borgarleikhúsið gert í ár sem tengist sjálfbærni eða samfélagslegri ábyrgð?

Borgarleikhúsið hefur stigið stór skref þegar litið er til samfélagslegrar ábyrgðar sem tengjast grunnstarfsemi leikhússins. Við húsið er rekinn leiklistarskóli fyrir börn á aldrinum 10-13 ára og stunda þar um 150 nemendur nám. Um er að ræða gríðarlega metnaðarfullt nám þar sem fagmennska, jafnrétti og leikgleði liggur til grundvallar. Sérstök áhersla er lögð á inngildingu og fjölbreytni sem sjá má í einstaklega hæfileikaríkum og fjölbreyttum nemendahópi skólans. Samkvæmt samstarfssamningi Borgarleikhússins og Reykjavíkurborgar sinnir leikhúsið fræðslustarfi og tekur á móti öllum elstu bekkingum leikskóla Reykjavíkur, 5. bekkingum og 10. bekkingum á leiksýningu. Boðið er upp á „afslappaðar“ sýningar fyrir aðila með einhverfu, táknmálstúlkun á barnasýningum og frá árinu 2019 hefur verið boðið upp á textun á íslensku, ensku og pólsku á völdum sýningum. Á síðasta leikári var leiksýning á pólsku sem og barnasýning sem leikin var á íslensku og færeysku. Leikhúsið stendur fyrir samfélagsbætandi verkefnum á borð við Létti, þar sem börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd sækja leiksmiðju og horfa á leiksýningu og Snák, þar sem fullorðnir umsækjendur um alþjóðlega vernd segja sína sögu. Í innra starfi leggur leikhúsið m.a. áherslu á samfélagslega ábyrgð í formi jafnréttisstefnu þar sem áhersla er á fjölbreytileika og jafnrétti. Leikhúsið hefur auk þess fengið jafnlaunavottun með sérlega góðum árangri. Áhersla er jafnframt á að flokka og endurvinna eftir bestu getu og endurnýta leikmuni og efni.

BIV2022_merki_sv

Þann 8. febrúar verður þeim vörumerkjum sem þykja hafa skarað fram úr í stefnumiðaðari vörumerkjastjórnun veitt viðurkenning. 

Fleiri tilnefnd vörumerki

Smelltu á takkan hér fyrir neðan til þess að kynnast fleirum tilnefndum vörumerkjum!