BERLIN GERMANY FALL 2023 (1)-1

Með vali á BÍV22 vill brandr efla umræðu um mikilvægi góðrar vörumerkjastefnu. Útnefningu hljóta þau vörumerki sem skara framúr þegar horft er til stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar. Ferlið byggir á akademískri og faglegri nálgun vörumerkjastjórnunar með staðfærslu sem þungamiðju.

Hej!

IKEA er tilnefnt til Bestu íslensku vörumerkjanna sem besta alþjóðlega vörumerkið á Íslandi árið 2022. Í aðdraganda viðurkenningar athafnarinnar sem fer fram í byrjun febrúar munum við kynnast betur þeim vörumerkjum sem eru tilnefnd. Hér á eftir fylgja svör við nokkrum spurningum sem við lögðum fyrir IKEA.

Ikea_logo.svg

Gerum daglegt líf þægilegra fyrir
sem flesta

Hvað gerir vörumerkið IKEA einstakt?

Sýn IKEA hefur verið nánast óbreytt frá upphafi; að gera daglegt líf þægilegra fyrir sem flesta og sú sýn lifir í öllum öngum starfseminnar. Hugmyndafræðin er grunnurinn að þessu öllu saman, allt frá útliti verslunar og skipulagi, til flatra pakkninga og vara sem hannaðar eru með fimm grunnstoðir í huga; gæði, form, notagildi, lágt verð og sjálfbærni. Það er engin verslun eins og IKEA þar sem nálgast má nánast allt undir einu þaki og njóta dagsins með fjölskyldunni án þess að þurfa að leita annað. IKEA er fyrir alla og rödd IKEA er vinaleg, einföld og skapar traust. Þetta, ásamt ábyrgri virðiskeðju og umhverfisstefnu, gerir vörumerki IKEA einstakt.

Ár áskorana, velgengni, nýsköpunar og endurnýjunar

Hvað eruð þið búin að gera á þessu ári sem stendur upp úr?

Síðasta ár hefur verið ár áskorana, velgengni, nýsköpunar og endurnýjunar hjá IKEA – svo eitthvað sé nefnt. Fyrir ári síðan bjuggum við enn við fjöldatakmarkanir sem höfðu vissulega áhrif á reksturinn en ekki síður fólkið. Það tók á að geta ekki hitt vinnufélaga eins og áður og við höfum notið þess innilega að geta aftur haldið námskeið og gleðskap fyrir starfsfólk eins og áður. Það var svo sannarlega langþráð. Við buðum gestum á ýmsa viðburði í versluninni og lögðum almennt áherslu á að fá fólk aftur til okkar, og gestafjöldinn hefur aukist jafnt og þétt allt árið. 
Lögð er mikil áhersla á stafræna þróun í rekstrinum og á árinu fór nýr vefur í loftið sem er í stöðugri þróun. Nýtt app er líka tilbúið og verður kynnt betur á allra næstu dögum. Nýr vefur og app eru hluti stefnu fyrirtækisins um að gera verslunarferðina, hvort sem hún gerist í Kauptúni eða í sófanum heima, enn betri og þægilegri.

Sveigjanleiki er galdraorðið

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar á árinu?

Áskoranir ársins hafa helst falist í að kljást við umhverfi sem er að „koma til baka“ eftir heimsfaraldur en þar sem óvissa ríkir enn vegna átaka og efnahagsástands. Það þurfti að halda vel utan um starfsmannahópinn að fjöldatakmörkunum liðnum, atvinnuleysi fór niður í nánast ekki neitt um tíma og starfsmannahald var krefjandi. Umræða um stríðsátök, verðbólgu og yfirvofandi kjarasamninga höfðu eðlilega áhrif á fólk sem horfir betur í hvar það ver tíma sínum og peningum, og má segja að samkeppnisaðilar hafi færst úr því að vera aðrar húsbúnaðarverslanir yfir í leikhús, veitingastaði og útlönd, svo eitthvað sé nefnt. Sveigjanleiki er galdraorðið í rekstrarumhverfi undanfarinna ára og svo virðist sem það verði áfram mjög mikilvægur eiginleiki.

_BIV_Viltu

Breytt vöruúrval og áhersla á samfélagsmiðla

Hafið þið farið nýjar leiðir til að ná til núverandi eða nýrra markhópa?

Til að þjóna betur yngsta markhópnum, væntanlegum viðskiptavinum sem eru farnir að huga að því að stofna eigið heimili eða versla sjálf sinn húsbúnað, þá hafa verið farnar nýjar leiðir í markaðssetningu, til dæmis með aukinni áherslu á samfélagsmiðla, og nú síðast var TikTok aðgangur IKEA á Íslandi stofnaður. Vöruúrvalið tók líka breytingum í þessa átt með nýrri línu tölvuleikjahúsbúnaðar og tímabundinni línu sem unnin var í samstarfi við Swedish House Mafia. Sú lína var kynnt til sögunnar með viðburði í verslun og vakti athygli hóps sem er ekki fastagestir IKEA. Viðhorf yngri hópa til sjálfbærni er stórt tækifæri fyrir IKEA sem við höfum nýtt til að koma á framfæri því góða starfi sem unnið er á því sviði.

„Kraftsamla“

Hafið þið gert eitthvað skemmtilegt í ár til þess að styrkja brandið innanhúss?

Með því að fræða starfsfólk um hvað IKEA stendur fyrir og hvaða merkingu vörumerkið hefur styrkjum við ímynd þess innanhúss. Starfsfólk sækir ekki aðeins námskeið heldur sést það líka í verki hvaða gildi vörumerkið stendur fyrir. Það sem Svíarnir kalla kraftsamla sést til dæmis reglulega í okkar starfi þegar þarf að sýna virkilega samheldni og jafnvel stíga út fyrir þau mörk sem starfslýsingin krefst. 
Á liðnu ári fékk starfsfólk langþráð tækifæri til að fagna saman aftur á ýmsum viðburðum, þar á meðal á árlegri uppskeruhátíð í september. Þar var ný sjónvarpsauglýsing frumsýnd, þar sem sænsk-íslenski drengurinn Jóhann kenndi bæði starfsfólki, og síðar landsmönnum öllum, sænskan framburð á IKEA vörum. IKEA grunnurinn á sterkar rætur í Suður-Svíþjóð þar sem eru haldin námskeið og fundir árlega fyrir starfsfólk IKEA um allan heim. Þangað hefur starfsfólk IKEA á Íslandi einnig sótt sér innblástur sem skilar sér að lokum í sterkara vörumerki.

Sjálfbærni yfir og
allt um kring

Hvað hefur IKEA gert í ár sem tengist sjálfbærni eða samfélagslegri ábyrgð?

Sjálfbærni er yfir og allt um kring í rekstri IKEA og er alltaf eitt af áhersluatriðunum í markaðsefni fyrirtækisins, hvort sem verið er að lýsa sjálbærum eiginleikum vöruúrvalsins, kynna stefnur eða sýna hvernig hægt er að lifa sjálfbærara lífi heima fyrir. Undanfarið ár höfum við þar að auki átt farsælt samstarf við Plastplan á árinu, sem hefur tekið plast sem fellur til hjá okkur og framleitt úr því nytjahluti. Innanhúss settum við flokkun í fókus og gerð var flokkunarhandbók og haldin flokkunarnámskeið fyrir allt starfsfólk. IKEA hefur um árabil stutt vel við slysavarnir barna og nú í ár var sá stuðningur efldur samhliða aukinni áherslu IKEA á heimsvísu í þeim málum, og er frekari frétta að vænta af því fljótlega.

BIV2022_merki_sv

Þann 8. febrúar verður þeim vörumerkjum sem þykja hafa skarað fram úr í stefnumiðaðari vörumerkjastjórnun veitt viðurkenning. 

Fleiri tilnefnd vörumerki

Smelltu á takkan hér fyrir neðan til þess að kynnast fleirum tilnefndum vörumerkjum!